{ Óli Njáll - oli@verzzzzlo.is }

[ Naggur | Pall | Doktor | Múrinn | Anton | Gamalt ]

[ AC/DC | Thors | Smurf | Sverrir | Gneistinn | Kolla ]

[ Nuda Veritas | Kristin | Keflavík | Bendt | Sunna | Greinar ]

23.7.04

Aðstoðardómarar


Þetta er í framhaldinu af færslunni um leikinn í gær.

Í Garðinum vildi svo til að aðstoðardómararnir voru góðir, flöggðu á brot sem dómarinn sá ekki og létu menn ekki komast upp með neitt múður. Slík framganga er aðdáunarverð, sérstaklega í deild þar sem oftast eru pappakassar á línunni sem eru vart hæfir til að flagga rangstöðu, hvað þá meira.

Óli Njáll  17:02| 
link

Sandalar og föstudagar

Fróðir menn hafa oft sagt að sandalar og skúrir eigi litla samleið. Í dag hef ég afsannað þetta og líður ágætlega í sandölunum mínum.

Bölvuð sé rigningin sem virðist ætla að vera alla helgina.

Óli Njáll  15:58| 
link

Fallegur föstudagur

Nú sit ég á mínu forna heimili í Vesturbergi 148, 11 Reykjavík. Nánar tiltekið inn í litla tölvuherberginu sem var aðsetur mitt fyrstu 14-15 ár lífs míns. Man ekki nákvæmlega hvenær stóri bróðir flúði að heiman en við þann atburð eignaðist ég stærra herbergið. Þar var hægt að safna meira drasli en að öðru leyti skiptir herbergjastærð litlu máli.

Eftir rétt rúman mánuð mun ég svo fara á Hagstofuna og flytja lögheimili mitt á Kaplaskjólsveg 51, 107 Reykjavík. Það verður furðulegt. Sömuleiðis verður furðulegt að fara að flytja allt dótið sitt ég hef nefnilega aldrei flutt svona í einu lagi áður. Allir mínir flutningar að heiman hingað til (2) hafa verið svona einn hlutur í einu og ferlið tekið marga mánuði. Sem er öfugt við skiptið er ég flutti heim til M&P síðast. Það gekk hratt fyrir sig. Já, flutningar eru merkilegur andskoti.

Annars er ég latur í dag og ætla ekki að vinna fyrr en eftir hádegið. Það er allt í lagi enda hef ég verið duglegur í vikunni. Jafnframt verður maður að fara í ræktina fyrir kvöldmat, við lok sumarfrísins ætla ég að verða orðinn óheyrilega flottur eða öllu heldur flottari en ég er núna.

Í gærkveldi brunuðum við Þórir suður í Garð og fylgdumst með leik Víðis og Leiknis. Er skemmst frá því að segja að Víðismenn eru grófir og lélegir en Leiknismenn góðir og nettir og unnu sanngjarnan 4-0 sigur. Víðistuddunum tókst að meiða annan hvern Leiknismann og þar á meðal uppáhaldið mitt, Jakob Spangsberg. En nú eru sumsé 27 stig kominn í hús eftir 12 leiki. Sennilega dugar að vinna 3 af þeim leikjum sem eftir er til að komast upp. Það væri nú gaman. Leiknir-Fram á næsta ári, ó já.

 

Óli Njáll  11:00| 
link
------------------

22.7.04

Símaleysi

Fólk hefur gaman af því að væla í mér út af símaleysi mínu. Úr því skal bætt innan tíðar.

Óli Njáll  15:25| 
link

Karlinn í brúnni segir brandara

Rafael Benitez lýsti því yfir í gær að Igor Biscan væri hinn fínasti miðjumaður. Ekki veit ég hvort spænskur húmor er svona súr eða hvort maðurinn er genginn af göflunum.

Eins og stendur er lubbinn á mér farinn að valda vandræðum, hann vex eins og honum sé borgað og ekkert sést lengur út úr augum og heyrn er farinn að daprast sökum ofvaxtar á hári. Það er því ljóst að klipping er á dagskrá. Kannski maður hringi í hana Guðrúnu, sem er nýi klipparinn minn, í dag. Sú hefur staðið sig ágætlega að undanförnu en ég hafði nokkra mánuði á undan átt í mikilli tilvistarkreppu eftir að Björgvin, stórvinur minn og klippari til 15 ára flutti, án mikils fyrirvara til Danmerkur. Að skipta um klippara er ekkert grín.

 

Óli Njáll  10:43| 
link
------------------

21.7.04

Miðvikuraunir

Heljarmennið og beljakinn Lambkáli sem í mannheimum gengur undir dulnefninu Hallur Örn Jónsson hefur hótað að láta mig hlaupa í klukkutíma á bretti á eftir og fara svo í körfubolta. Já, geðveiki sumra á sér ekki nokkur takmörk. Um daginn kættist ég stórlega eftir að hafa náð 30 mínútum á brettinu. Augljóslega mun ég ekki geta gengið næstu 12 dagana eftir þessar pyntingar. Af körfuboltadeild Sarúmans og Lambkála er það hins vegar að frétta að Lambkáli beið loks lægri hlut í gær eftir ansi marga sigra í röð.

En fyrst talið berst að körfubolta. Um daginn var ég ósáttur við Lakers að hafa selt Shaq fyrir furðuguttann Lamar Odom (who?). Það er þó ekki það versta. Derek Fisher er einnig farinn frá félaginu. Ó mig auman. Fisher er minn maður. Svitabönd rúla.

Stemmingin Í Verzló er fín um þessar mundir, fjarnámsgerðin er í ham. Blessunarlega engir nemendur á þvælingi í júlí.

Óli Njáll  10:08| 
link
------------------

20.7.04

Heiðursmaðurinn Ragnar

Það er ekki ofsögum sagt að tryggingafrömuðurinn, konferensráðið og krikkethetjan Ragnar Kristinsson er hinn mesti öðlingur og viskubrunnur. Nú hefur þessi góði maður nefnilega bjargað framtíð minni.
 
Stór orð en engu að síður sönn. Nú er svo mál með vexti að ég þarf að grenna mig svo um munar. Slík iðja er með eindæmum leiðinleg enda krefst það þess að ég sýni aðhald í mat og drykk. Bjór ku til að mynda vera afskaplega slæmur í slíku ferli og ég búinn að sjá fram á erfiða mánuði bjórlausa.
 
Víkur þá sögunni að Ragnari Kristinssyni sem í gær kom með þann góða fróðleiksmola að ale bjórar innihéldu að jafnaði um 25% færri kaloríur eða um 160 kkal í pint í stað 220 kkal í lagerbjórum. Þetta þýðir augljóslega að ég get leyft mér nokkra öllara öðru hverju svo framarlega sem það er ale og þar sem Newcastle Brown Ale er besti bjór í heimi (eins og allir góðir menn vita) er lífi mínu borgið.
 
Bölvað að bjórbirgðir heimilsins eru sem stendur einn kassi af óhollum Thule:(
 
En fyrst maður er farinn að tala um bjór þá er rétt að skýra lesendum þessarar síðu frá því að í Kenýa fæst hinn fínasti lager bjór sem bruggaður er þar um slóðir. Sá nefnist Tusker og hefur verið bruggaður þar frá því um 1920.  Sá er sko ljúfur í sólinni. Þess má geta að nafnið Tusker er til komið á þann hátt að Tusker var fíll sem traðkaði einn stofnanda brugghússins til bana. 

Óli Njáll  10:08| 
link
------------------

19.7.04

4 sýslur

Spurning dagsins er á þessa leið: Hvað eiga ensku skírin Surrey, Lancashire, Leicestershire og Glamorgan sameiginlegt?
 
Verðlaun eru 1 Thule bjór í dós.

Óli Njáll  23:10| 
link

Hressileg byrjun

Ég er barasta mættur í vinnuna. Sit einn og yfirgefinn uppi í rjáfri hér í Verzlunarskóla Íslands og massa glærupakka. Landnám Íslands er tilbúið og stjórnkerfi þjóðveldisaldar í mótun. Þetta eru meiri afköst en allt sumarið hingað til.
 
Áðan rölti ég í Hagkaup og keypti mér morgunskatt. Skyr, banani og kringla er fínn morgunmatur fyrir mann í líkamsræktarátaki. Jú,jú ég er enn að þykjast ætla að verða ofurtöffari, stæltur og massaður. Gengur ekkert alltof vel enda er matur góður. Í Kringlunni voru útsölur út um allt. Íhugaði að líta við í Boss en jafnvel á útsölu er verðlag þar út úr kortinu. Rölti því bara sæll og glaður framhjá í æfingabuxum og stuttermabol.
 
En vikan framundan er spennandi. Stefnan er sett á eitt alarmasta krummaskuð Íslands á fimmtudaginn, já ég er að tala um Garðinn þar sem Víðir ætlar að taka á móti Leikni í 2.deildinni. Eftir aðeins 1 sigur í síðustu 5 leikjum er nauðsyn fyrir mína menn að hirða öll stigin og laga markatöluna. Það er ólíðandi að Spangsberg sé ekki langmarkahæstur í deildinni því hann er yfirburðamaður.
 
Félagi Björn hefur jafnframt boðið mér að líta við í sumarhreysi sínu í landbrotinu. Þar gæti ég tekið upp á því að hoppa upp á bykkjubak í fyrsta skipti á ævinni. Ég hef aldrei reynt það áður en hins vegar fór ég á beljubak í nokkrar mínútur þegar ég var ca. 5 ára. Það var æðisleg stund og þá minningu mun ég að eilífu varðveita enda eru beljur heilagar og æðislegar skepnur.
 
 


Óli Njáll  11:29| 
link
------------------




Powered by Blogger