Deit
Ég á stefnumót í hádeginu við sæta og skemmtilega dömu. Það er nú ekki leiðinlegt.
Óli Njáll 11:59| link
em rabb
Já, þá er nú kominn tími til að tjá sig um mótið eftir að Englendingar duttu út úr keppninni fyrir örmu liði Portúgala. Ég spáði Englendingum titilinum fyrir mótið en varð strax ljóst í fyrsta leik að ég væri hálfviti og dró orð mín til baka. Englendingar klúðruðu þessu með asnalegum varnarleikstíl og voru án efa eitt alleiðinlegasta lið keppninnar. Brotthvarf þeirra er ágætt. Það þýðir líka að hægt verður að ganga frá allri vitleysunni með Steven Gerrard á næstunni.
Annars gengu flestallar spár mínar upp um riðlakeppnina. Reyndar spáði ég Spánverjum áfram úr a-riðli en ekki Grikkjum. Allt annað rættist ef frá er talið að Frakkar og Englendingar víxluðu sætum í B-riðli. Nokkuð sáttur við þetta bara.
Spá fyrir 8-liða úrslit:
Frakkland-Grikkland 2-0. Sorry Stefán Pálsson en Grikkir eiga ekki breik.
Svíþjóð-Holland 3-1. Hér eru tvö skemmtileg lið á ferðinni en ég spái því að ofurmennið Kim Kallstrom eigi stórleik fyrir Svía. Sökum CM fíknar minnar á Kim stað í mínu hjarta og nýtur ævarandi stuðnings míns.
Danmörk-Tékkland 2-3. Í þessum leik leynast sigurvegarar mótsins, Tékkar. Þessi lið leika ásamt Svíum skemmtilegasta boltann á mótinu. Danir eru að vanda mínir menn númer 1 en ég er hræddur um að þeir ráði ekki við Tékka sem eru uberkúl og þá sérstaklega Milan Baros. En ef svo færi að Danir myndu komast áfram þá spái ég þeim titlinum.
Um mótið í heild má segja að það hefur verið leiðinlegt. Flest liðin eru voða "ítölsk" í eðli sínu, hugsa aðallega um vörn og nenna ekki að sækja. Blessunarlega hafa mörg þeirra brennt sig á því og hrunið út s.s. Ítalía, England og Spánn. Allt lið sem gætu farið langt með því að spila alvöru fótbolta. Nú er bara að vona að Tékkar, Danir eða Svíar taki þetta. Það væri sigur fyrir góða knattspyrnu.
Ef einhver vill tjá sig um gæði (eða ógæði) Kaplaskjólsvegar vil ég endilega biðja þann hinn sama um að senda mér tölvupóst í dag.
Óli Njáll 09:34| link
------------------
23.6.04
Veðrið í Wales
Í dag er rigning í Wales og fagna því allir góðir menn. Nú kynni einhver að velta fyrir sér hví í ósköpunum þessir góðu menn séu yfir höfuð að velta fyrir sér veðrinu á þessum slóðum og gætu stungið upp á að menn hugsuðu frekar um hið ljúfa veður hér á skerinu. (sem þeir sömu góðu menn fagna vissulega einnig). En í dag átti að hefjast í Wales leikur Glamorgan og Durham í ensku krikketdeildinni og þar sem Durham hefur átt vægast sagt slæmt tímabil er liðinu fyrir bestu að sem flestir leikir verði rigningu að bráð. Sumsé, ég sáttur.
Hamborgarar eru góður matur, það verður seint véfengt. Í gær grillaði ég nokkra slíka sem brögðuðust afbragðsvel. Season All, nýmöluð piparblanda og hvítlauksduft eru afbragðs góð krydd á borgarana. Hamborgarar eru einmitt rétti maturinn til að gúffa í sig yfir knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Grilla í hálfleik og borða í seinni hálfleik.
Ekki er ég í góðu stuði í vinnunni, kannski væri ágætt að fá eitthvað af hinni velsku rigningu hingað núna.
Óli Njáll 10:16| link
------------------
21.6.04
Kominn heim
Já, ég kom víst heim frá Kenýa í síðustu viku. Ekki nenni ég að skrifa langa ferðasögu, aðrir hafa séð um þá hlið mála og er lesendum bent á að fræðast þar ef þeir hafa áhuga.
Í huga mínum er hins vegar fótbolti ofarlega á dagskrá. Tímabilið hér heima virðist nefnilega ætla að vera stórskemmtilegt. Ber þar helst að nefna frábært gengi Leiknismanna sem hafa lagt alla andstæðinga sína að velli í 2. deildinni. 6-0-0 og markatalan 20-4. Það er þó ansi leitt að ég hef aðeins náð að mæta einu sinni á völlinn en á því verður gerð bragarbót og hyggst ég rúnta á Selfoss næsta laugardag og láta öllum illum látum.
Valsmenn eru ekki að standa sig neitt verr og stefna beina leið í efstu deild, þaðan þeir munu falla næsta sumar. Sú staðreynd skyggir þó ekki á gleðina er fylgir því að vinna 1.deildina.
Liverpool réð fínan stjóra, ég hef trú á honum. Steven Gerrard í einhverri fýlu og hugsar sér til hreyfings. Það er ekki gott. Mun frekar vil ég selja Owen þann ofmetna skunk fyrir fullt af peningum. Með Baros og Cisse í framlínunni þurfum við ekkert á meiðslahundinum Owen að halda.
Í dag er annars fyrsti dagurinn sem ég ætla að nota til gagnlegra starfa. Fjarnámið skal búið til nú á næstu vikum. Það sem af er degi hef ég eytt 2 tímum á internetinu og 4 mínútum í að skipuleggja fjarnámið. Það teljast meðalgóð afköst.
Óli Njáll 10:35| link
------------------