8.5.04
Jújú, víst er ég enn á lífi
Hafi einhverjir lesendur óttast að í kjölfar síðustu bloggfærslu hafi ég verið tekinn af lífi af júróvísíónbrjálæðingum þá staðfestist það hér að sá ótti var ástæðulaus. Eða reyndar ekki þar sem vissulega voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að koma á mig höggi á undanförnum dögum. Í fréttum er annars margt merkilegt.
Ber þar hæst að nefna glaðninginn í póstinum á fimmtudaginn, það var maíheftið af Wisden cricketer sem er ansi hreint gott tímarit sem ég var að kaupa mér áskrift að. Búinn að rúlla aðeins yfir þetta og er full sáttur við mína fjárfestingu. Meðal annars ágæt úttekt á county cricket í Englandi þar sem Durham er spáð drullu í allt sumar. Það þarf reyndar engann snilling til að spá því. Tímabilið er gersamlega farið í hundana strax í upphafi og sérstaklega eftir að tilkynnt var í vikunni að Herchelle Gibbs geti ekkert leikið með í sumar vegna meiðsla. En samt, áfram Durham!
Ekkert bólar á farmiðunum sem ég á að vera búinn að fá senda frá Bretlandi. Ég er ekki full sáttur við það, þarf sennilega að fara að reka á eftir þessu. Það er reyndar hundleiðinlegt að þurfa að standa í svona veseni en maður vill samt vera öruggur um að komast til Kenýa. Það er kúl.
Á morgun er fyrsti leikur Hauka og Vals í úrslitum handboltans. Ég verð þar og styð mína menn fram í rauðan dauðann. Eftir 8 daga hefst svo íslandsmótið í knattspyrnu. Leiknir vs. ír á Leiknisvellinum. Ég verð þar og einnig happahatturinn minn. Þetta verður annað dýrðartímabil hjá Leikni. Ég hef fulla trú á þeim í efri hluta deildarinnar. Reyndar viss ókostur að vörnin hjá liðinu er hriplek enda besti varnarmaðurinn 16 ára gutti. En þá er bara hið gamla mottó nígeríska landsliðsins, það skiptir ekki máli þótt andstæðingurinn skori, við skorum þá bara meira.
Óli Njáll 10:51| link
------------------
2.5.04
Eurovision hefur heltekið líf mitt
Þessa dagana er vart líft á Hofsvallagötu 23 enda hefur þar Júróvísíónfíkn tekið algerlega völdin af hinni áður dagfarsprúðu stúlku, Sunnu Mímisdóttur. Það er júróvísíón í sjónvarpinu, græjunum, tölvunni helst allt á sama tíma. Til að kóróna þetta hefur hún ekki talað um annað í nokkrar vikur. Ég bið til guðs að hún verði fljótlega eðlileg aftur.
Í dag sit ég og læri á litlum sögukontór í Verzló. Hér er friðsælt. Enginn truflun af neinu tagi ef frá er talin internetfíkn mín sem m.a. er ábyrg fyrir þessum skrifum. Hér verður lesið lengi fram eftir degi eða fram að kvöldmat. Oft nást hér töluverð afköst í lestrinum og guð veit að á því þarf ég að halda enda er ég í djúpum skít fyrir komandi próf í námskeiðinu "öryggi og samvinna í alþjóðakerfinu".
Krikketið gengur ekki nógu vel í dag. Durham tapar wicketum í gríð og erg og enginn annar en Nicky Peng virðist ætla að skora fyrir liðið. Ástralinn Marcus North heldur áfram að vera auli og er ég farinn að verða langeygur eftir Herchelle Gibbs sem ætti að fara að birtast fljótlega í liði Durham ásamt Rawalpindi Express, Shoaib Akhtar, furðufugli og kjaftaski. Þá verður nú tíðin góð.
Meðal lesefnis fyrir öryggis og samvinnu prófið er b.a ritgerð úr stjórnmálafræði við HÍ sem fjallar um útbreiðslu kjarnavopna eftir kalda stríðið. Ég verð að játa að mér er mjög til efs að b.a. nemi á Íslandi hefi eitthvað merkilegt og nýtt um það mál að segja. Ámóta eins og ég ætlaði að skrifa b.a. ritgerð um uppgang nasisma í Þýskalandi á fjórða áratugnum.
Óli Njáll 12:42| link
------------------
|