Andpólitískur
Nú áðan rann upp fyrir mér nokuð bjart ljós. Ég átti að vera að lesa stjórnmálaheimspeki fyrir próf. Áhugavert efni, jú vissulega en ég nenni bara engan veginn að lesa það. Reyndar er aðalástæðan sú að bókin eða öllu heldur bækurnar eru prump. Önnur og ekki síður veigamikil ástæða er sú staðreynd að ég er orðinn andpólitískur í seinni tíð. Já, segi og skrifa.
Undanfarna mánuði hef ég ekki nennt að koma að nokkru leyti nálægt stjórnmálastarfi, ár og dagur er síðan ég mætti á fund á vegum flokksins og ekki hef ég hundskast í mótmæli svo mánuðum skiptir. Ég er meira að segja hættur að lesa pólitísk vefrit. Kostir þessa eru vitanlega þeir að ég spara smá tíma enda eyddi maður hátt í 15 mínútum á dag við lestur greina sem skrifaðar voru af hinum ýmsu og mislélegu pennum sem í ofanálag voru iðulega með aðrar skoðanir en ég. Smám saman dró úr þessum lestri, í staðinn fyrir að lesa öll vefritin fór maður að velja og hafna og að lokum var svo komið að ég nennti ekki einu sinni að lesa heimasíðu uvg. Múrinn var lengi vel á daglega listanum en þangað hef ég þó varla litið undanfarna mánuði. Sú síða er ekki lengur kúl eftir að öllum undirflokkunum var sópað út. Breytingar á ritstjórn hafa heldur ekki heillað.
En hvar stend ég þá eiginlega í pólitíkinni núna. Jú, ég er löngu orðinn þreyttur á eigin flokki en guð veit að engir skárri vakostir eru í boði. Mér leiðist græningjaháttur flokksins og vona að álver í Reyðarfirði rísi sem hraðast og helst vil ég tvö stykki og stærri virkjun við Kárahnjúka fyrst menn eru byrjaðir á þessu á annað borð. Í öðrum málum finnst mér flokkurinn heldur ekki vera að láta til sín taka af nokkru viti. Eina sem ég er ánægður með í pólitík er að Þórólfur Árnason borgarstjóri er reglulega á pöllunum á Hlíðarenda og styður Val í handboltanum.
Um daginn var ég spurður hvort ég væri búinn að skrifa undir mótmæli gegn útlendingafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hér með staðfestist að það hef ég ekki gert og ætla ekki að gera. Ekki það að ég sé eitthvað í nöp við útlendinga heldur einfaldlega nenni ég ekki að lesa frumvarpið og dettur ekki í hug að kvitta undir eitthvað einvörðungu af því að allir í kringum mig eru að gera það. Guð veit að helmingurinn af þeim hefur ekki hugmynd um hverju það er að mótmæla.
En þótt ég sé orðinn andpólitískur og fúllyndur vesturbæingur þá geri mér samt fulla grein fyrir því að það getur ekki verið viðvarandi ástand til lengri tíma. Ég mun snúa aftur og sennilega fyrr en síðar. Sérstaklega fyrst ég er farinn að velta þessum hlutum fyrir mér. Sennilega merki um að pólitískur áhugi minn fari vaxandi á nýjan leik en þangað til:
Ísland úr Nató, herinn burt!!!
Óli Njáll 13:20| link
Rigning í Reykjavík
Skokkaði út í Háskóla áðan og skilaði ritgerð í samanburðarstjórnmálum. Ekki vildi betur til en svo að það fór að rigna og ég því aðeins votur eftir labbitúrinn. En það er allt í lagi, fínt að fá smá göngutúr, hjálpar til við heilsuátákið sem nú er í gangi. Stefni að því að létta mig aðeins fyrir Kenýaferðina.
Próflestur er formlega hafinn og lesefni dagsins er bókin Hvar á maðurinn heima? eftir Hannes Gissursson. Sú bók er fúl en víst ekkert við því að gera, bara lesa lesa og lesa aðeins meira. Annars nenni ég varla í vorpróf núna, er alveg kominn með hundleið á stjórnmálafræði og langar í sumarfrí. En þetta mun þó allt hafast að lokum.
Durham sigraði Nothingham í gær í 1day leik og er því með fullt hús stiga eftir eina umferð. Þetta var góður og öruggur sigur 26 hlaupum munaði á liðunum. Marcus North erkiauli skoraði 54 stig og fær plús í kladdann enda batnandi mönnum best að lifa. Einnig stóðu þeir Mark Davies og Gareth Breese sig vel og tóku báðir 3 wickets en einnig skoraði Breese ein 26 stig.
Næsti leikur Durham er svo gegn Derbyshire í 4daga keppninni og hefst hann á miðvikudag í Derby. Derby er eitt fárra liða sem hefur aumari leikmannahóp en Durham og því ættu mínir menn að vinna leikinn. Nicky Peng mun skora 100 held ég.
Íslandsmótið í handbolta heldur áfram á morgun og ég mæti að sjálfsögðu á Valur-ÍR á Hlíðarendanum. Ekki er ég neitt alltof bjartsýnn enda ÍR-ingar með mjög gott lið og Valsliðið hálf lamað sökum meiðsla þeirra Rolands og Markúsar.
Í yngri flokkum hefur Valsmönnum verið að ganga ágætlega að undanförnu þótt ekki hafi þeir skilað titlum. 2. flokkur náði 3. sæti og 3. flokkur 2. sæti. Framtíðin er augljóslega björt hjá Val. Það er gott.
Best að læra smá núna, jamm.
Óli Njáll 11:14| link
------------------